Monthly Archives: August 2014

10 ára afmæli OpenStreetMap

Í dag 9. ágúst 2014 er 10 ára afmæli OpenStreetMap.

OpenStreetMap er verkefni fyrir frjáls og opin landupplýsingagögn og hver sem er getur tekið þátt í að leggja til verkefnisins, ekki ósvipað Wikipediu sem er enn þekktara verkefni.

Verkefnið hófst 2004 þegar Steve Coast í Bretlandi komst að því að landfræðigögn sem opinberar stofnanir höfðu safnað saman fyrir fé skattborgara voru illa aðgengileg almenningi og iðulega gegn gjaldi. Hann hóf því að safna saman þeim gögnum og koma þeim á birtingarhæft form á openstreetmap.org.

Á Íslandi voru fyrstu skrefin stigin 2007 þegar hópur einstaklinga tók sig saman til að teikna upp helstu samgönguæðar höfuðborgarsvæðisins með GPS ferlum. Síðan þá hafa fjölmargir einstaklingar tekið þátt í að auðga kortið, oft með hjálp loftmynda sem Bing gaf til verkefnisins auk þess sem gögn opinberra stofnana hafa smátt og smátt verið að opnast fyrir notkun, til dæmis hjólavefsjá LUKR 2010.

Undanfarið höfum við lagt áherslu á að betrumbæta kort af þéttbýlisstöðum á landsbyggðinni sem og að koma yfir 5500 lögbýlum á kortið.

Ótalmörg fyrirtæki og verkefni byggja síðan ofan á gögnum OpenStreetMap, hjólavefsjár eins og OpenCycleMap og RideTheCity, hjólastólaaðgengi í gegnum WheelMap og öpp þess fyrir snjallsíma auk fjölmargra fyrirtækja sem nota OpenStreetMap kortin.

Í tilefni dagsins og nýsamþykktra reglna um svæðafélög OpenStreetMap Foundation hefur Hliðskjálf sent inn umsókn um að gerast opinbert svæðisfélag OpenStreetMap á Íslandi.

Til hamingju með daginn öll sömul.