Aðalfundur Hliðskjálfar 30. maí 2016

Aðalfundur Hliðskjálfar verður haldinn í Kórnum, fjölnotasal Bókasafns Kópavogs, í Hamraborg mánudaginn 30. maí klukkan 17. Góðar vistvænar samgöngur eru þangað – hjólaleiðir eru góðar og 5 leiðir almenningsvagna stoppa fyrir utan.

Tilkynning þess efnis var send á félagsmenn með tölvupósti 2 vikum fyrir aðalfund.

Vonast er til að koma vinnuhópi um rötun gangandi og hjólandi á blússandi siglingu – fjölgun hjólreiðamanna og færsla Strætó yfir á kort byggt á OpenStreetMap hafa gert kortið að hluta af daglegu lífi margra.

Fundarboð á Facebook

Jólafundur með kortastemmningu

Í dag miðvikudaginn 17. desember heldur LÍSA fund að Kjarvalsstöðum undir heitinu “Jólafundur með kortastemmningu – Fjölbreytileg framsetning landupplýsinga” – sjá dagskrána.

Við verðum þar með smá erindi tengt OpenStreetMap, Strava og Waze. Sjá glærurnar hér: Lifandi kort.

Alþjóðlegur dagur landupplýsinga 19. nóvember

19. nóvember næstkomandi er alþjóðlegur dagur landupplýsinga (GIS Day stofnaður 1999, þriðji miðvikudagur í nóvember hvert ár) og af því tilefni verður í fyrsta sinn á Íslandi dagskrá tileinkuð honum.

Það verða 5 mínútna örkynningar í Öskju við Háskóla Íslands á milli 15 og 17 auk annars efnis. Við í Hliðskjálf verðum með eldsnögga kynningu á OpenStreetMap á þessum tíma.

Kynningin:

 

10 ára afmæli OpenStreetMap

Í dag 9. ágúst 2014 er 10 ára afmæli OpenStreetMap.

OpenStreetMap er verkefni fyrir frjáls og opin landupplýsingagögn og hver sem er getur tekið þátt í að leggja til verkefnisins, ekki ósvipað Wikipediu sem er enn þekktara verkefni.

Verkefnið hófst 2004 þegar Steve Coast í Bretlandi komst að því að landfræðigögn sem opinberar stofnanir höfðu safnað saman fyrir fé skattborgara voru illa aðgengileg almenningi og iðulega gegn gjaldi. Hann hóf því að safna saman þeim gögnum og koma þeim á birtingarhæft form á openstreetmap.org.

Á Íslandi voru fyrstu skrefin stigin 2007 þegar hópur einstaklinga tók sig saman til að teikna upp helstu samgönguæðar höfuðborgarsvæðisins með GPS ferlum. Síðan þá hafa fjölmargir einstaklingar tekið þátt í að auðga kortið, oft með hjálp loftmynda sem Bing gaf til verkefnisins auk þess sem gögn opinberra stofnana hafa smátt og smátt verið að opnast fyrir notkun, til dæmis hjólavefsjá LUKR 2010.

Undanfarið höfum við lagt áherslu á að betrumbæta kort af þéttbýlisstöðum á landsbyggðinni sem og að koma yfir 5500 lögbýlum á kortið.

Ótalmörg fyrirtæki og verkefni byggja síðan ofan á gögnum OpenStreetMap, hjólavefsjár eins og OpenCycleMap og RideTheCity, hjólastólaaðgengi í gegnum WheelMap og öpp þess fyrir snjallsíma auk fjölmargra fyrirtækja sem nota OpenStreetMap kortin.

Í tilefni dagsins og nýsamþykktra reglna um svæðafélög OpenStreetMap Foundation hefur Hliðskjálf sent inn umsókn um að gerast opinbert svæðisfélag OpenStreetMap á Íslandi.

Til hamingju með daginn öll sömul.

Leiðbeiningar fyrir merkingar á OpenStreetMap

Bættum við tveimur síðum í dag á vefinn okkar undir OpenStreetMap þar sem við bendum á hvernig mætti kortleggja sumarbústaðabyggðir annars vegar og hleðslustöðvar raffarartækja hins vegar.

Minnum á að þeir sem setja inn efni á OpenStreetMap og eru óvissir í sinni sök geta flett uppi á wiki-síðu OpenStreetMap, þar er besti byrjunarpunkturinn líklega þessi síða og svo undirsíður hennar.

Góðar fréttir frá hinu opinbera

Aðgerðaáætlun um stafrænar landupplýsingar staðfest

Umhverfis- og auðlindaráðherra hefur staðfest aðgerðaáætlun um uppbyggingu, rekstur og viðhald grunngerðar fyrir stafrænar landupplýsingar um Ísland. Í aðgerðaáætluninni er meðal annars fjallað um löggjöf á sviði landupplýsinga og farið yfir stöðu landupplýsinga hér á landi.

Sjá nánar frétt á vef Umhverfisráðuneytisins og sjálft skjalið (PDF).

Hliðskjálf stofnuð

Hliðskjálf, félag um opin og frjáls landupplýsingagögn, var stofnað 24. október 2013 í salnum Kórinn í Bókasafni Kópavogs.

Allir sem hafa áhuga á því að efla og fjölga opnum og frjálsum landupplýsingagögnum eru boðnir velkomnir í félagið.

Félagið hefur fengið úthlutað kennitölu 541113-0880.